top of page
langleidin_1.jpg

Leggur 1: Reykjanestá - Bláalónið (26km)

6.júní  2020

Leiðin frá aukavitanum á Reykjanestá eftir stígum og slóðum gegnum hraun, sanda, jarðhita, yfir sprungur inn að bílastæðinu hjá Bláalóninu.

Leiðarlýsing

Vegalengd

26.3 km

Hækkun/lækkun

466/455 m

Undirlag

Hraun, sandur, möl, grjót, mosi, mold

Leiðin

Stikað að mestu leiti eftir gönguleið sem kallast Reykjavegurinn

Trakk

Nánari lýsing

Leiðin byrjar við aukavitann á Reykjanestá sem er um 2.5 km ganga frá bílastæðinu við Valahnúkamöl. Aukavitinn stendur á syðsta tanga Reykjanessins og að honum er þokkalegur slóði. Dæmi eru um að Langleiðin sé farin frá bílastæðinu á Valahnúkamöl sem styttir þá legginn um 2.5 km.
Leiðin liggur með fram sjónum til að byrja með eftir stikuðum stíg. Farið er eftir skemmtilegum slóðum gegnum hraun uns komið er að affalli Reykjanesvirkjunar, heitu vatni sem mætir öldufalli. Örlítið utan leiðar en sannarlega vert að skoða. Næst þarf að koma sér upp á skemmtilega gönguleið gegnum hraunbreiður en þar þarf örlitla lagni að komast á réttan stíg. Fljótlega eftir 8 km er gönguleiðin yfirgefin sem heldur áfram með sjó og farið yfir á malarslóða þangað til farið er yfir Nesveg, þjóðveginn um Reykjanesið. Þar er ein pláneta í plánetusafninu sem gaman er að skoða. 
Eftir km 10.5 tekur við stikuð gönguleið. Hún er þokkalega merkt en mjög torfarin á köflum gegnum úfið hraun, hæðir og hóla, grasflatir og moldarfláka. Þegar Eldvörpin nálgast batnar leiðin nokkuð og verður vel til gengin þótt moldarpittir geti leynst þar. Leiðin gegnum Eldvörpin og áfram upp að Þorbirni er alveg sérstaklega skemmtileg og hápunktur þessa leggs en ýmist nánast rennislétt á hraunhellum eða mjög torfarin yfir sprungur og stórgrýti. Endað er á skemmtilegum stað við bautastein á bílastæði Bláa lónsins.

Til athugunar

Hluti leiðarinnar sem valinn var er lítið eða illa stikuð með mjög grófu undirlagi og hrauni en stór hluti er eftir stikum og stígum. Einnig er ráðlegt að hafa með sér skyndihjálpabúnað því bylta í hrauninu gæti endað með stórum rispum.

Myndasöfn

Google myndalbúm frá 2020

Ferðasögur

Ferðasaga Óskars 23.maí 2020

20200523_114205.jpg
bottom of page