top of page
Langleidin_2.jpg

Leggur 2: Bláalónið - Djúpavatn

Annar hluti langleiðarinnar liggur frá Bláalóninu eftir gönguleiðinni Reykjaveginum yfir hryggi, gegnum hraun milli hálsa um náttúruundrið Sogið og að bílastæði í námunda við Djúpavatn.

Leiðarlýsing

Vegalengd

27.6 km

Hækkun/lækkun

466/294m

Undirlag

Hraun, sandur, möl, grjót, mosi, gras, mold

Leiðin

Stikað að mestu leiti eftir gönguleið sem kallast Reykjavegurinn

Trakk

Nánari lýsing

Leiðin byrjar á bílastæðinu við Bláalónið. Hlaupið er eftir góðum stígum sem gerðir hafa verið til að tengja Bláalónið við göngustíga og skógræktarsvæði upp við Þorbjörn. Þegar farið er yfir Gindarvíkurveg þarf örlitla lagni að finna stikurnar sem leiða mann áfram Reykjaveginn. Eftir svolitla hækkun er komið að Gálgaklettum, stórgrýtisklöppum sem þarf að þræða fyrir. Þá taka við frábærir stikaðir stígar. Rétt eftir 5km koma krossgötur þar sem gæta þarf að því að fylgja réttum stikum. Vegaslóðarnir eru nokkuð skýrir þar eftir og hlykkjast gegnum ýmiskonar landslag, hraun, möl og mold. Rétt upp úr 18km taka við grösug lönd með greiðfærum stígum en þá er nokkuð róleg en stöðug hækkun. Upp úr 23km taka við malarbrekkur og stígar þegar maður nálgast fjallshrygg sem fara þarf yfir. Á stikuðu gönguleiðinni fyrir Reykjaveginn er farið yfir hrygginn við Spákonuvatn, lítið vatn uppi á fjalli sem styttir leiðina um kl. Þess í stað er mælt með að halda áfram uns komið er að malarslóða að tilraunaborholu við annan endann á Sogunum. Sogin er magnþrungið svæði sem minnir um margt á umhverfið í Landmannalaugum og væri synd að sleppa á leiðinni. Vanda þarf hvar farið er í gengum Sogin því það er ekki merkt gönguleið og leirinn er viðkvæmur fyrir umgengni og ágangi. Eftir Sogin er farið niður á grösuga bala við enda Djúpavatns þar sem leiðin endar á malarbílastæði. Í heildina litið er undirlag blanda af jarðvegi, þúfum, hrauni, sandi og möl, klassískt fjallafæri. Allt hlaupið er nokkuð jöfn hækkun en þó mest á síðustu 8km með góðri brekku niður í blálokin.

Til athugunar

Á nokkrum stöðum leiðarinnar er auðvelt að taka ranga beygju eða villast þrátt fyrir að stikur séu oftast sýnilegar. Gott er að hafa GPS og trakk af leiðinni. Einnig er brugðið út af hefðbundinni stikaðri leið á tveimur stöðum til þess að skoða áhugaverða staði.

Myndasöfn

Ferðasögur

Ferðasaga Óskars 6.júní 2020

20200606_133330.jpg
bottom of page