top of page
Search
  • Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Annar leggur frá Bláa lóninu inn í land um leynda dali


Laugardaginn 6.júní fór ég 2. legg Langleiðarinnar, frá Bláa lóninu að Djúpavatni í góðum félagsskap. Við vorum 4 sem lögðum af stað en ein hljóp með okkur fyrstu 5km áður en hún snéri við. Veðrið var með besta móti, sól og blíða en smá vindur.





Leiðin lá til að byrja með með fram Bláalóninu þar sem hlaupið er við hvítt uppistöðulón í anda lónsins sjálfs, upp að Þorbirni og síðan að fjallabaki eftir Reykjaveginum. Þetta var nokkuð gott hlaupafæri, stikaðir stígar, vegaslóðar, tilgengnar hraunhellur og grösugar grundir. Á leiðinni voru ýmsir áhugaverðir staðir. Upp við Þorbjörninn voru skemmtilegir stígar og þegar komið var yfir Grindavíkurveginn og upp góða brekku kom maður að Gálgaklettum, stórgrýtishnullungum sem maður þurfti að þræða fram hjá. Eftir það tóku við góðir stígar og vel merktir. Reyndar voru þeir svo vel merktir og margir að við lentum í vandræðum. Við vorum á hlaupum eftir fallegum mosavöxnum stíg þegar úrið mitt fór að pípa “off cource”. Ég veitti því ekki strax athygli fyrr en ég tók eftir því að engin rauð lína var á kortinu. Við höfðum þá tekið ranga beygju nokkur hundruð metrum fyrr og hlaupið vitlausa gönguleið í ranga átt. Við snérum við og tókum rétta gönguleið á krossgötunum. Þar kvöddum við einn ferðalanginn sem hélt til baka en við héldum áfram.


Næstu 10 kílómetrar voru í fallegu umhverfi en viðburðalitlu. Það var helst gaman að sjá hvað liggur að baki allra fjallanna sem maður sér þegar maður keyrir Suðurstrandarveginn. Við hlupum fram á rólyndis rjúpu sem hreykti sér á hraunnibbu og bauð upp á myndatöku í návígi . Við hittum líka, eins og á öllum okkar ferðum, göngufólk á vappi. Eftir um 2/3 leiðarinnar voru hraunbreiðurnar að baki og við tóku grösug tún og undirlendi. Þar þræddum við göngustíga, kindagötur og slóða gegnum dal sem hefur verið gott beitarland hér áður.

Þá fór maður að sjá í Keili aftan frá og það glitti í höfuðborgarsvæðið í fjarska. Þegar grasinu sleppti hefðum við geta elt Reykjaveginn upp að Spákonuvatni en ég hafði planað leiðina sérstaklega þar sem mig langaði að fara í gegnum Sogin sem eru litli lengra. Við fórum því upp og niður nokkrar brekkur á torförnum malar/grjótslóða þar til við komum að malarvegi sem liggur frá Reykjanesbrautinni, fram hjá Keili og upp að gamalli tilraunaborholu við Sogin. Þar tók við þröngur lítill leirstígur inn að Sogunum.


Sogin voru unurfagurt svæði og magnað að fara í gegnum. Algjörlega þess virði að fara sér ferð þangað. Eini gallinn er að það var greinilega ekkert skipulag á svæðinu og stígurinn einfaldlega fótatraðk ferðamanna. Ég hef talsverðar áhyggjur af því að svæðið gæti legið undir skemmdum ef ekki verður farið í skipulag svæðisins. Eftir Sogin var farið yfir lítinn háls þar sem Vigdísavellir opnuðust fyrir okkur og við sáum niður að Djúpavatni. Við komumst í návígi við fuglalífið í grasbölunum og enduðum frábæran túr við lítinn hlykkjandi læk hjá bílastæðinu þar sem bílnum hafði verið lagt kvöldið áður.

Við Tommi voru þreyttir en kældum okkur í Djúpavatni í lok hlaups til að hressa og kæta. Abba frænka afþakkaði boðið að hoppa með útí.

Þetta var eðal hlaupaferð, rúmir 28km á um 5 tímum með stoppum, myndatökum og spjalli í góðum félagsskap um ótrúlegt land.



16 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page