top of page
Search
  • Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Langleiðin yfir Sprengisand að Versölum

Um helgina 13.-14.ágúst fórum við Tomas fyrstu Langferð ársins 2022, nú sem tveggja daga ferð. Markmiðið var að fara tvo leggi frá gatnamótum Sprengisandsleiðar og að Versölum.


Dagur 1: Við lögðum af stað úr bænum snemma að laugardagsmorgni á tveimur bílum og fluttum vagn á tjaldstæðið í Þjórsárdal. Þar settum við upp búðir, gerðum okkur klára fyrir hlaup dagsins og lögðum af stað að skutla bíl við enda fyrri leggs helgarinnar. Planið var að hlaupa eftir Búðarhálsi inn á Sprengisandsleið. Samkvæmt öllum þeim rannsóknum, kortagrunnum og pappírskorti og athugunum sem hægt var að gera átti að vera fínn vel merktur jeppavegur fyrir báðar dagleiðir. Það stóðst að því leitinu til að jeppavegurinn frá malbikaða kafla Búðarhálsvirkjunar og að fyrra stoppi helgarinnar við Kvíslamót er ágætlega fær betri jeppum en afskaplega seinfarinn. Það tók okkur um klukkutíma hvora leið að rúnta á Landcruiser og Suzuki Vitara en sá síðarnefndi var alveg á mörkunum. Við komum bílnum fyrir, ókum svo rúman klukkutíma til baka í startið gatnamótin við Sprengisandsleið þar sem við stoppuðum í fyrra. Veðrið reyndist hið besta, skýjað en hlýtt og meðvindur þannig að okkur varð of heitt á köflum. Fyrstu 10 kílómetrarnir voru á malbiki í vegkanti þjóðvegarins og hálfa leið upp að Búðarhálsvirkjun þar sem við beygðum inn á jeppaveginn upp á Búðarháls. Þessi dagleið var talsvert á fótinn, um 400m hækkun á fyrstu 15km. Þar uppi á næst hæsta punkti Búðarháls blasti við okkur magnað útsýni yfir fyrsta hluta Sprengisands og útsýni langt upp á Hálendi. Við tók furðu skemmtileg leið með grófum malarslóðum, eyðilegum grjótköflum með nokkrum gróðurvinjum á milli. Á 20km er góður lækur en það er eina aðgengilega rennandi vatnið á þessum legg. Þótt umhverfið væri á vissan hátt eyðilegt var hlaupaleiðin frekar fljótfarin á þessum þokkalega slóða með ýmiskonar tilbreytingu á leiðinni. Við komum loks eftir rúmlega fjóra tíma niður af Búðarhálsinum og stoppuðum á gatnamótum sem nefnast Kvíslamót. Vegalengd 31,12km Þar fórum við í bílinn og eyddum aftur 1,5klst í að koma okkur til baka í vagninn. Árangri dagsins var fagnað með góður grilli og góðum nætursvefni, enda komin nótt þegar ævintýri dagsins var lokið.


Dagur 2: Seinni dagurinn hófst á langri bílferð. Fyrst keyrðum við bílana eftir Sprengisandsleið inn að Versölum, um 1,5klst akstur frá Þjórsárdal. Þar skildum við eftir bíl í marki. Við ákváðum í stað þess að keyra keyra hlaupaleið dagsins öfuga á Kvíslamót frekar en að fara alla leið til baka og seinfæran Búðarhálsinn. Samkvæmt korti átti þetta að vera jeppaslóð eins og Búðarhálsinn. Það kom fljótt í ljós að þessi jeppaslóð var mun seinfærari og í raun var óbreyttur Landcruiser alveg á mörkunum að komast þetta. Eftir á að hyggja mælum við með velútbúnum bíl með fylgd. Þegar við vorum að hjakkast eftir slóðanum talsvert utan alfaraleiðar austan við Stóru-Kjalöldu komum við að blautum parti við enda votlendissvæði þar sem slóðin og hjólför lágu í gegnum. Við fengum hland fyrir hartað þegar bíllinn byrjaði að hægja á sér í drullunni og sáum við fyrir okkur að sitja fastir og hlaupa eftir hjálp niður á þjóðveg. Þökk sé lágadrifi crúsersins og drulluslettum upp á þak komumst við í gegnum flákann en þá var ekki aftur snúið. Ferðin gekk seint eftir grófum slóða en að lokum komumst við að Kvíslarmótum og gátum hafið hlaupalegg dagsins. Þegar hér er komið við sögu á Langleiðinni tekur hinn raunverulegi Sprengisandur við. Nú blasir við mishæðótt sléttlendi, urð og grjót með fækkandi gróðurvinjum. Eins og fyrri daginn var samt eitthvað heillandi við vaxandi auðn og vaxandi útsýni og jöklasýn. Ferðin sóttist enn betur en daginn áður því hækkunin var lítil og fyrstu 15km voru nánast leikandi. Reyndar var talsverður mótvindur allan tímann og því jakkaveður en ekki það slæmt að okkur yrði kalt eða verulega af okkur dregið. Á gatnamótum þar sem val er um að fara vestur eða austur fyrir Stóru-Kjalöldu ákváðum við að breyta frá akstrinum, sleppa við drullumallið og elta jeppaveginn austur gegnum Kjalvötn með von um að hann væri betri yfirferðar. Til að byrja með var hann algjör draumur fyrr en slóðinn endaði í miðjum Kjalvötnum. Samkvæmt kortum ætti ekki að vera vað þarna en það mátti sjá af grasi í botni að meira vatn er í Kjalvötnum en venjulega og því hefur vatnið yfirtekið veginn. Það var ekkert annað í stöðunni en vaða yfir sem reyndist ekki dýpra en rétt upp í hné. Við tók magnaður kafli um svokallaðan Kjalveg með endalausum vegi og svartri auðn. Þegar slóðinn beygði aftur norður fór hann verslandi og varð mjög torfarinn síðustu kílómetrana upp á Sprengisandsleið. Við mælum því ekki með akstri þessa leiðina nema á sérútbúnum bílum. Þegar á Sprengisandsleið var komið tóku við 6km kafli eftir auðförnum þjóðveginum þar sem við enduðum við skálana í Versölum. Vegalengd 26,5km.


Eftir vel heppnað helgarverk tók við langur akstur allan hringinn niður Sprengisand og upp Búðarhálsinn (og til baka) að sækja crúserinn áður en við fórum til baka í Þjórsárdal að pakka saman og fara heim. Þetta var í heildina alveg frábær ferð í algerri einangrun þar sem við hittum ekki einn einasta mann, bíl eða hjól á hlaupaleiðinni nema síðasta hlutann eftir Sprengisandsleið.

Meðfylgjandi er albúm helgarinnar: https://photos.app.goo.gl/GYZRwr72HMovxkZW7


41 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page