top of page
Search
  • Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Leggur 3 og 4: Niður í bjarta byggð og upp í dimm og drungaleg skörð


20.júní 2020 fór ég með flottum hópi næstu tvo "leggi" langleiðarinnar. Við lögðum af stað frá Djúpavatni í rigningu og mótvind áleiðis í átt að Hafnarfirði. Leiðin lá um slóða yfir grónar grundir og mosavaxin hraun. Það var býsna gaman að hlaupa eftir hraunhellum sem voru eins og malbikað breiðstræti á köflum en víða var torfarnara hraun sem hægði á. Við fórum örlítið af Reykjaveginum, upp á myndarlegan hraunjaðar og yfir mosavaxið hraun til þess að hlaupa niður Hrútagjá sem er mjög skemmtileg um stíg í yfirgróinni hraungjá sem hefur líklega myndast við hraunrennsli. Á þeim punkti var brostin á brakandi blíða.

Við Krísuvíkurveginn tók við sandur, malarslóðar og loks vel genginn stígur við Undirhlíðar að Kaldárseli þar sem leggur 3 endar. Þar áðum við, 20km að baki og gerðum okkur klár fyrir áframhaldið.


Leiðin liggur meðfram Valahnúkum við Helgafell og inn á Selvogsgötu, gönguleiðina frá Hafnarfirði í Þorlákshöfn. Hana eltum við gegnum Þríhnúka- og Bollahraun upp í Grindarskörð með smá viðkomu í Þórðarhelli. Nú var sólin horfin bak við ský og dropar komnir í loftið enda sáum við framundan að þung grá ský héngu yfir Bláfjöllunum þótt enn væri sól að baki við Kaldársel. Við vorum nokkuð farin að þreytast á leiðinni upp í Grindarskörð enda var það talsvert á fótinn. Efst í skarðinu fundum við snjóskafl sem þurfti lagni og örlítlar rassa-ýtur til að komast yfir verandi á ónelgdum skóm. Þegar upp var komið og við snérum við til að virða fyrir okkur bakaleiðina hvarf öll þreyta eins og dögg fyrir sólu.

Útsýnið frá Grindarskörðum var stórfenglegt, örlítil þoka og væta gaf umhverfinu magnþrunginn blæ. Þegar við komumst upp úr skörðunum, eftir smá bras, skiptum við um gönguleið í átt að Bláfjöllum. Þá breyttust veðuraðstæður fljótlega í mótvind, rigningu og lítið skyggni sem var að vissu leiti mjög viðeigandi stemning í Dauðadal. Það verður að viðurkennast að síðstu 8km voru ansi góð andleg æfing að halda áfram þótt móti blási. Undirlagið var ekki hlaupavænt, gróft undirlag, steinar, þúfur og móabörð á milli stuttra stígabrota og þetta var sérstaklega torfarið í þessu arfaslaka veðri. Að lokum komumst við í Bláfjöll upp að skála Ullurs í blindaþoku (um 125m skyggni) þreytt en sæl með 36km að baki á tæplega 6 klukkustundum með pásum.

Kærar þakkir fyrir samfylgdina kæru Abba, Tommi, Marco og Sólborg!


18 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page